Stjórn Brákarhlíðar sendi eftirfarandi ályktun til heilbrigðisráðherra og alþing...

Stjórn Brákarhlíðar sendi eftirfarandi ályktun til heilbrigðisráðherra og alþing…

Stjórn Brákarhlíðar sendi eftirfarandi ályktun til heilbrigðisráðherra og alþingismanna Norðvestur kjördæmis eftir fund sinn 4.apríl s.l. – jafnframt hefur fjölmiðlum verið send ályktunin.
"Stjórn Brákarhlíðar lýsir miklum vonbrigðum með svör heilbrigðisráðuneytisins við endurteknum erindum Brákarhlíðar varðandi annars vegar fjölgun hjúkrunarrýma og hins vegar óskum um að breyta dvalarrýmum í hjúkrunarrými, eitt á móti einu. Stjórn Brákarhlíðar unir ekki slíkum úrskurðum.
Sú afstaða að hafna því að fjölga heildaríbúðarrýmum í Brákarhlíð er óskiljanleg, fyrst og síðast vegna þess að það er viðvarandi skortur á hjúkrunarrýmum og að það er yfirlýst markmiðið stjórnvalda að bæta úr þeim skorti. En slíkt markmið getur varla verið skilyrt því að alfarið sé um að ræða glænýja steinsteypu. Í Brákarhlíð eru öll íbúðarrými ný eða nýendurgerð skv. ítrustu kröfum um hjúkrunarrými en þar eru einnig vannýtt rými. Það liggur fyrir að hægt er að bæta við fjórum nýjum herbergjum sem standast alla staðla varðandi gerð og búnað fyrir verð eins, borið saman við kostnaðarmat, aðgengilegt á heimasíðu ráðuneytisins. Auk þess hefur ekki verið farið fram á að ráðuneytið taki þátt í þeim kostnaði.
Biðlisti inn á Brákarhlíð er langur og þau rök að vísa til góðrar stöðu í Heilbrigðisumdæmi Vesturlands standast ekki skoðun. Slík staða jafnar ekki út biðlista í Brákarhlíð. Einstaklingar úr öðrum heilbrigðisumdæmum sækjast eftir því að búa í Brákarhlíð og með tilkomu færni- og heilsumatsnefnda á sínum tíma er vistun í hjúkrunarrými ekki bundin við íbúa hvers umdæmis fyrir sig. Því er mikilvægt að geta virt vilja hvers einstaklings hvort sem hann kemur af höfuðborgarsvæðinu eða annars staðar frá.
Dvalarrýmum hefur fækkað mikið á landsvísu en staðan í Brákarhlíð nú er sú að hlutfall dvalarrýma á móti hjúkrunarrýmum er mjög hátt; 17 af 52 varanlegum rýmum eru dvalarrými. Þá er rétt að geta þess að 7 af þeim 17 einstaklingum sem nú eru á dvalarrýmum eru með hjúkrunarrýmismat og fá þjónustu í þá veru. Það að bjóða upp á að skipta út tveimur dvalarrýmum fyrir hvert eitt hjúkrunarrými er óásættanlegt, ekki aðeins fyrir Brákarhlíð, heldur eins fyrir samfélagið allt, því að með því stæðu auð rými, fullgild hjúkrunarrými, sem annars staðar er verið að bæta við samkvæmt áformum stjórnvalda.
Stjórn Brákarhlíðar skorar á Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra að endurskoða afstöðu sína, nú og við undirbúning fjárlaga komandi árs, til erinda Brákarhlíðar um ofangreint og hvetur einnig alþingismenn NV-kjördæmis til þess að leggja málinu lið, samfélaginu öllu til heilla."