Að flytja í Brákarhlíð
Þeir sem hyggja á flutning í Brákarhlíð þurfa að sækja um færni- og heilsumat til Færni- og heilsumatsnefndar í viðkomandi landshluta. Sjá nánari upplýsingar á heimasíðu Embætti landlæknis, hlekkur á umsóknareyðublað hér neðar á síðunni. Færni- og heilsumat er faglegt einstaklingsbundið mat á þörfum einstaklinga fyrir varanlega hjúkrun og búsetu á hjúkrunarheimili. Ekki er hægt að senda umsóknina rafrænt heldur verður að prenta hana út og koma til viðkomandi Færni- og heilsumatsnefnda. Færni og vistunarmatsnefnd fyrir heilbrigðisumdæmi Vesturlands er með aðsetur á Heilsugæslustöðinni í Borgarnesi.
Þegar fyrir liggur að einstaklingur er að flytja á Brákarhlíð, þarf að undirbúa flutning á nýja heimilið sem best. Mörgum þykir erfitt að flytja og aðlagast breyttum aðstæðum. Í mörgum tilvikum liggur sjúkrahúsdvöl að baki og í einhverjum tilvikum hefur ekki gefist tækifæri til að kveðja gamla heimilið. Mikilvægt er að starfsfólk og aðstandendur séu samstíga um jákvæða aðlögun. Það er mikilvægt að hún takist sem best þannig að heimilismenn upplifi öryggi og hlýju á nýja heimilinu.
Heimsóknir
Til þess að dvölin verði ánægjuleg og aðlögun þeirra sem flytja á Brákarhlíð sé sem eðlilegust eru ættingjar og vinir hvattir til þessa að vera duglegir að heimsækja sitt fólk. Það skiptir miklu máli að heimilismenn finni áfram jafn sterk tengsl við sína nánustu þrátt fyrir breytt búsetuform. Ættingjar eru alltaf velkomnir í heimsóknir og er markmiðið að þeim líði vel á heimilunum og upplifi sig velkomna. Reglulegar heimsóknir eru oft fastir liðir á dagskrá nánustu ættingja. Undantekningar varðandi þennan þátt geta komið upp, samanber reglur um heimsóknir og umgengni v/Covid-19.
Persónuvernd
Brákarhlíð leggur metnað í að tryggja trúnað og vernd þeirra persónuupplýsinga sem heimilið þarf að afla og vinna með í tengslum við starfssemi okkar, þ.á.m. upplýsingar um íbúa.
Smelltu hér til að skoða persónuverndarstefnu Brákarhlíðar
EDEN vottað heimili
Brákarhlíð hefur frá árinu 2010 stuðst við og unnið í anda EDEN hugmyndafræði og fékk formlega vottun sem EDEN heimili 15. desember 2020. Hér neðar á þessari upplýsingasíðu er afrit af viðtali sem tekið var við hjúkrunarforstjóra Brákarhlíðar þar sem hún ústskýrir hvað EDEN hugmyndafræðin stendur fyrir.
Greiðsluþátttaka
Daggjöld til heimila eru ekki greidd nema samþykkt vistunarmat liggi fyrir. Ástæða er til að vekja athygli umsækjenda um færni- og heilsumat á því að þegar lífeyrisþegi flyst á hjúkrunarheimili falla niður lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins (TR). Við það að greiðslur falla niður myndast réttur til vasapeninga sem eru tekjutengdir. Mikilvægt er að umsækjendur kynni sér þátttöku í dvalarkostnaði og kostnað við búsetu. Frekari upplýsingar um þessi efni er að finna á vefsetri TR.
Brákarhlíð innheimtir fyrir Tryggingastofnun kostnaðarþáttöku íbúa. Tryggingastofnun reiknar út kostnaðarþátttökuna og veitir nánari upplýsingar um útreikningana í síma 560-4400.
Sjá hér slóð á „reiknivél“ inn á vef TR: https://reiknhildur.tr.is/reiknhildur/2022_vistun/reiknhildur_oe.jsp
Aðstandendur sem þurfa að hafa samband við Brákarhlíð vegna greiðsluþátttöku heimilismanna geta verið í sambandi við framkvæmdastjóra í síma 432-3188 eða í gegnum netfangið bjarki@brakarhlid.is
Aðbúnaður
Starfsemi Brákarhlíð fer fram að Borgarbraut 65 í Borgarnesi. Húsnæðið á öllum einingum heimilisins er hannað og byggt með þarfir aldraðra í huga þannig að þjónusta við heimilismenn verði sem allra best. Húsnæðið hefur nýlega undirgengist meiriháttar endurbætur með tilheyrandi einkarýmum og setustofum á hverri einingu í takt við breytta tíma. Öryggiskerfi og vöktun er á öllu húsnæði Brákarhlíðar allan sólarhringinn, alla daga ársins.
Þvottahús
Brákarhlíð sér um þvott á persónulegum fatnaði heimilismanna nema á þeim fatnaði sem er viðkvæmur og þarf að fara t.d. í fatahreinsun.
Matarbakkar/heimsendur matur
Brákarhlíð er með samning við Borgarbyggð um að elda mat sem eldri borgarar og öryrkjar innan þéttbýlis Borgarness geta fengið sendan heim í hádeginu. Sótt er um heimsendan mat á íbúagátt Borgarbyggðar. Þar er hægt að velja þá daga sem óskað er eftir. Sveitarfélagið sér um akstur og innheimtu vegna þessarar þjónustu. Nánari upplýsingar er hægt að fá í þjónustuveri Borgarbyggðar í síma 433-7100.
Í felagsstarfinu á Borgarbraut 65a er boðið upp á hádegismat alla virka daga, nánari upplýsingar hjá umsjónarmanni félagsstarfsins.
Félagsleg heimaþjónusta
Fyrirspurnir um félagslega heimaþjónustu beinast alfarið til sveitarfélaga, sími í Ráðhúsi Borgarbyggðar er 433-7100.
Heimahjúkrun
Heimahjúkrun er alfarið á hendi Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, símanúmer Heilsugæslustöðvarinnar í Borgarnesi er 432-1430.
Hvíldarinnlögn
Samhliða því að fylla út eyðublað hér að neðan um umsókn um hvíldarinnlögn og koma því til Vistunarmatsnefndar fyrir heilbrigðisumdæmi Vesturlands þá er mikilvægt að haft sé samband við Brákarhlíð með upplýsingar varðandi það ef óskir eru um tilteknar dagsetningar og þ.h. Símanúmer er 432-3180 og netfang brakarhlid@brakarhlid.is
Færni og heilsumat
—————————————————————-
Brákarhlíð fullgilt Eden heimili
Í Brákarhlíð hefur verið unnið eftir Eden hugmyndafræðinni síðan árið 2010. Heimilið fékk alþjóðlega viðurkenningu sem fullgilt Eden heimili 15. desember 2020. Sjá hér viðtal sem birtist í afmælisblaði Brákarhlíðar þar sem fjallað er um EDEN hugmyndafræðina.
„Við kynntumst hugmyndafræðinni fyrst árið 2010 og höfum verið að vinna í anda hennar síðan þá. Hugmyndafræðin byggir fyrst og fremst á virðingu fyrir einstaklingnum, að hann geti lifað lífinu með reisn. Hér vinnum við á heimili fólks en það dvelur ekki á okkar vinnustað,“ útskýrir Jórunn María Ólafsdóttir, hjúkrunarforstjóri í Brákarhlíð.
„Eden hugmyndafræðin fókusar á að útrýma plágunum þremur; einmannaleika, vanmáttakennd og leiða með áherslu á líf sem vert er að lifa. Þetta snýst í raun fyrst og fremst um að breyta viðhorfi og menningu hjá starfsfólki, aðstandendum og samfélaginu öllu. Við erum að koma hingað inn á heimili fólks en þau eru ekki stödd á okkar vinnustað og það erum við sem eigum að taka tillit til þeirra en ekki öfugt,“ segir Jórunn og bætir við að hugmyndafræðin gangi einnig út á að halda sjálfsvirðingu sinni og stuðla að sjálfsákvörðunarrétti íbúa. „Það eiga allir að geta haft eitthvað um sitt að segja. Það er ótrúlega gott að vera á hóteli í smá tíma og fá fulla þjónustu en það er ekki gott til lengdar. Það er okkur mikilvægt að hafa hlutverk, þó það sé bara að stafla diskum, rétta vatnskönnuna eða eitthvað slíkt. Allir þurfa að fá að taka þátt í heimilislífinu en ekki bara vera þiggjendur,“ segir Jórunn. Þá segir hún það fara eftir getu hvers og eins hvaða hlutverki hann gegnir. „Vissulega geta ekki allir gert allt en allir geta samt eitthvað, hvort sem er að stafla diskum, veita öðrum félagsskap eða í raun bara hvað sem er. Það er okkur mikilvægt að hafa hlutverk, og eiga innihaldsrík samskipti“ segir hún.
Einmannaleiki getur verið erfiður fyrir marga, sérstaklega á efri árum og þess vegna er lögð áhersla í Eden hugmyndafærðinni á að stuðla að samskiptum. „Öll samskipti eru mikilvæg, hvort sem er á milli íbúa, við starfsfólk, ástvini og aðra. Við leggjum okkur fram við að stuðla að innihaldsríkum samskiptum,“ segir Jórunn en tekur fram að einmannaleiki og einvera sé ekki sami hluturinn. „Þetta snýst ekki um að hafa standandi partí öllum stundum heldur að fólk upplifi sig sem hluta af heild. Það er misjafnt hvað hentar hverjum og einum og erum við því með fjölbreytta nálgun. Til dæmis er hægt að fara í söngstundir með Vigni húsverði, hópastarf með Aldísi, jóga, morgunleikfimi, upplestur úr Skessuhorni og margt margt fleira. Svo er sest saman við borðið í hádegis- og kvöldmat og rætt saman eins og gert er á flestum heimilum,“ útskýrir hún. „Við tölum ekki um deildir og sjúklinga einsog þekktist áður, heldur heimili og íbúa. Heimilin í Brákrarhlíð eru ólík, eins og önnur heimili, hvert og eitt hefur sinn brag. Á einu heimilinu er til að mynda alltaf hlustað á fréttirnar á slaginu og þögn á meðan. En á öðru heimili er frekar hlustað á tónlist en fréttir. Það er alveg allur gangur á þessu og svo breytist heimilisbragurinn með heimilismeðlimum,“ segir Jórunn.
„Þetta er ánægjulegt og fróðlegt ferðalag sem við erum rétt að byrja á,“ segir Jórunn en bætir við að hún sjái þó mörg stór og lítil skref hafa verið tekin síðasta áratug. „Árið 2010 hættum við með starfsmannafatnað. Þá höfðu starfsmenn lengst af verið í hvítum sloppum en núna eru allir í sínum fötum. Þetta eykur heimilislegan brag en fólki líður ekki eins og þetta sé heimili þegar fólk um allt er í hvítum sloppum,“ segir hún.
Eden hugmyndafræðin er ekki bundin við formlegar reglur eða ramma. „Þetta snýst í raun ekki um að heimilið þurfi að vera með einu eða öðrum hætti heldur snýst þetta um hugarfar og viðhorf til heimilisins og íbúanna,“ segir Jórunn. En af hverju skiptir þá máli að verða formlega Eden heimili? „Þetta er fyrst og fremst viðurkenning fyrir okkur starf,á því sem við erum að gera, eiginlega eins og klapp á bakið. Það er alltaf gott að fá slíka viðurkenningu og það hvetur okkur áfram, heldur okkur við efnið, rammar inn það starf sem við erum að vinna og leiðir okkur áfram veginn“ svarar Jórunn.
Hvernig hefur gengið að vinna eftir Eden hugmyndafræðinni á tímum kórónuveirufaraldursins? „Það má segja að Covid sé alveg andstæðan við Eden,“ svara Jórunn. „Eden hugmyndafræðin snýst um samskipti, að gefa af sér og nærveru en núna erum við að leggja áherslu á fjarlægð og skertari samskipti. Ég er þó ánægð hversu vel okkur hefur gengið að finna nýjar leiðir og ég held að það hjálpi til hversu margir starfsmenn héðan hafa sótt námskeið í Eden hugmyndafærðinni,“ segir Jórunn. „Þó þetta sé hjúkrunarheimili er þetta samt heimili og hér eru alla jafna allir velkomnir svo það er mikil svipting fyrir íbúa að loka heimilinu svona. En starfsfólkið hefur staðið sig mjög vel að gera það sem hægt er til að gera dagana sem besta, og gera aðstæðurnar eins heimilislegar og góðar fyrir íbúana og hægt er,“ segir Jórunn.
———————————————————————————
Lög og reglur
Um starfsemi heilbrigðis- og öldrunarþjónustu gilda margvísleg lög og reglugerðir:
- Lög um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007
- Lög um málefni aldraðra nr.125/1999
- Lög um réttindi sjúklinga nr. 74/1997
- Lög um sjúkraskrár nr. 55/2009
- Lög um almannatryggingar nr.100/2007
- Lög um sjúkratryggingar nr.112/2008
- Lög um sjúklingatryggingu nr.111/2000
- Sóttvarnarlög nr.19/1997
- Lög um almannavarnir nr.82/2008
- Lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr.77/2000
- Lyfjalög nr. 93/1994
- Lög um gagnagrunn á heilbrigðissviði nr. 139/1998
- Lög um dánarvottorð, krufningar o.fl.nr.61/1998
- Lög um tóbaksvarnir nr. 6/2002
- Lög um lækningatæki nr.16/2001
Starfsfólki í heilbrigðisþjónustu ber að starfa í samræmi við þau lög sem starfsréttindum þeirra fylgir:
Heildarlöggjöf um allar heilbrigðisstéttir tóku gildi 1. janúar 2013. Leystu þau af hólmi fimmtán lög sem nú gilda um störf þeirra.
Siðareglur
Félög heilbrigðisstétta setja félagsmönnum sínum siðareglur sem þeim ber að nýta sér sem leiðarljós og til stuðnings í daglegu starfi.
- Siðareglur félagsliða
- Siðareglur hjúkrunarfræðinga
- Siðareglur sjúkraliða
- Siðareglur sjúkraþjálfara
- Siðareglur iðjuþjálfa
- Siðareglur lækna
Aðrir hlekkir
- Afmælisblað – Saga heimilis í 50 ár
- Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu www.samtok.is
- Handbók SFV fyrir íbúa hjúkrunarheimila
- Kröfulýsing fyrir hjúkrunar og dvalarrými
- Eden Alternative