Opnum að nýju fyrir heimsóknir 9. nóvember

Kæru íbúar og aðstandendur

Með hliðsjón af tilmælum sóttvarnaryfirvalda og því að smitgát á heimilinu er aflétt þá opnum við að nýju fyrir heimsóknir inn á Brákarhlíð f.o.m. þriðjudeginum 9. nóvember með eftirfarandi skilyrðum:

Heimilið er opið á milli kl. 13:00 og 18:00, vinsamlegast virðið þær tímasetningar eftir fremsta megni sé það unnt.  Við hvetjum ykkur til að gæta ítrustu árvekni og hafa sóttvarnaráðstafanir í heiðri.

Allir gestir spritti hendur og setji upp grímu við komu, heimilt er að taka niður grímu inn á herbergjum. Íbúar eru undanþegnir grímuskyldu en starfsmenn bera grímu við störf sín.

Að öllu jöfnu mæti sem fæstir gestir í heimsókn til íbúa á dag nema að höfðu samráði við starfsfólk. Við mælumst til að aðstandendur tali sig saman um hvernig heimsóknum er háttað.

Gestir fara rakleiðis í herbergi íbúa og aftur að útidyrum að heimsókn lokinni.

Gestir mega ekki staldra við í sameiginlegum rýmum heimilisins.

Við hvetjum alla til að hafa opið fyrir rakningarapp Almannavarna í símum sínum !

Heimilið er ekki lokað og íbúum er heimilt að fara út af heimilinu en við biðjum um að ekki sé farið í fjölmenna mannfagnaði eða aðra fjölmenna staði/samkomur.

Gestir mega ekki koma í heimsókn ef þeir:

  1. Eru í sóttkví eða smitgát.
  2. Eru í einangrun (einnig meðan beðið er niðurstöðu úr sýnatöku).
  3. Hafa dvalið erlendis undanfarna daga og eru ekki komnir með neikvæða niðurstöðu úr skimun eftir komuna til landsins.
  4. Hafa verið í einangrun vegna COVID-19 smits og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift.
  5. Eru með einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang).

Sem fyrr eru undantekningar gerðar, í samráði við starfsfólk, ef um mikil veikindi heimilismanna er að ræða.

Þessar reglur verða endurskoðaðar um leið og forsendur breytast.

Með virðingu, vinsemd og þakklæti fyrir skilning á aðstæðum.

Borgarnesi 8. nóvember 2021

Stjórnendur Brákarhlíðar