Mánudagsmolar 26.okt. 2020

Kæra heimilisfólk og aðstandendur, nokkrir mánudagsmolar.
Við í Brákarhlíð störfum enn á neyðarstigi almannavarna og því höldum við óbreyttu fyrirkomulagi varðandi heimsóknir og heimsóknarbann a.m.k. að sinni. Örfáar undantekingar hafa verið gerðar og svo verður áfram með ákveðnum skilyrðum og í samráði við stjórnendur heimilisins og hjúkrunarvakt. Staðan verður tekin eftir næstu helgi varðandi næstu skref. Við erum mjög á varðbergi ef einhverra einkenna verður vart hjá heimilismönnum og starfsmenn eru hvattir til að mæta ekki ef einhver einkenni gera vart við sig hjá þeim. Við höfum aukið grímunotkun okkar starfsmanna og svo verður áfram enn um sinn.
Við minnum á að símtöl og myndsímtöl í gegnum facebook stytta stundir, spjaldtölvur eru á öllum heimilum og viljum við hvetja til að tæknin sé nýtt þessa daga sem við þurfum að hafa lokað, eins erum við að krydda samverustundir inn á heimilunum með t.d. happadrætti og slíku eftir því sem við á.
Við þökkum af heilum hug þann skilning og hlýhug sem við höfum fundið vegna þeirra aðgerða sem við höfum gripið til, munum að það birtir upp að nýju og við getum farið að hittast aftur án verulegra takmarkana.
Við í Brákarhlíð sendum hlýjar kveðjur til þeirra staða þar sem smit hafa greinst undanfarna daga og vonum svo sannarlega að þeir sem veikst hafa nái heilsu að nýju hratt og vel og að starfsemi komist að nýju í samt horf sem fyrst.
Allt annað;
Nú í vikunni mun fylgja Skessuhorni afmælisblaði okkar í Brákarhlíð sem verður dreyft inn á öll heimili í Borgarbyggð, Eyja- og Miklaholtshrepp og Skorradal. Um er að ræða kynningu á starfsemi okkar í dag sem og yfirlit yfir starfssemina síðustu 50 ár og aðdragandann að stofnun heimilisins.
Dagsetning formlegrar EDEN vottunar er ekki alveg frágengin en við reiknum með að sú „athöfn“ verði enn látlausari en stefnt var að s.l. föstudag og verði rafræn og meira táknræn en eitthvað annað. Okkur er í mun að setja punkt aftan við aðlögunar- og inntökuferlið og að fara að vinna sem fullgilt EDEN heimili þó það breyti í nánast engu varðandi okkar daglegu störfum í núinu. Við erum komin á þann stað að okkar vinnubrögð eru algerlega í EDEN anda þó heimsóknarbann setji okkur svolítið út af laginu, vonandi einungis tímabundið.
Ekki meira að sinni, njótum daganna og gleymum ekki að sinna okkur sjálfum og okkar ástvinum kæru vinir !
Með vinsemd,
Stjórnendur Brákarhlíðar