Kæru vinir okkar í Brákarhlíð, Við viljum, með þessum innleggi þennan föstudagi…

Kæru vinir okkar í Brákarhlíð,

Við viljum, með þessum innleggi þennan föstudaginn, veita ákveðna innsýn í okkar daglega starf og samskiptamáta okkar starfsmanna Brákarhlíðar í þessum sérstöku aðstæðum sem við, eins og reynda flestir, störfum í þessa dagana. Við höfum hætt, að sinni, starfsmannafundum og reynum að nýta facebook og aðra samskiptamöguleika eins og kostur er, hér er t.a.m. afrit af skilaboðum sem undirritaður sendi á starfsmannahópinn okkar fyrr í dag þannig að, eins og áður sagði, hér veitum við innsýn í verkefni líðandi stundar sem eru allskonar þessa dagana eins og sjá má, en hér er textinn:

“Við getum þetta – saman !

Nú eru tvær vikur síðan við í Brákarhlíð settum á heimsóknarbann og síðan er búið að setja á samkomubann og ýmsar aðrar varúðarráðstafanir gerðar í samfélaginu. Nokkur umræða, og gagnrýni, hefur sprottið upp í fjölmiðlum um heimsóknarbann á húkrunarheimili. Undirrituðum hefur ekki borist nein kvörtun um heimsóknarbannið hér í Brákarhlíð heldur þvert á móti sýna aðstandendur, og samfélagið einnig, því skilning en auðvitað má búast við gagnrýni og/eða beiðnum um undanþágu ef heimsóknarbann varir í margar vikur til viðbótar.

Við í Brákarhlíð erum að endurmeta og endurskoða okkar áherslur dag frá degi og svo verður áfram meðan þessi staða er uppi. Við teljum að okkar undirbúningur sé góður eins langt og hann nær í því óvissuástandi sem ríkir og öll innlegg frá ykkur, kæra samstarfsfólk, í ýmsum myndum hefur verið ómetnalegt, takk fyrir það !
Við erum að skoða málin varðandi það að skipta enn frekar upp þeim vöktum starfsmanna sem hægt er að endurskoða til þess að lágmarka alla almenna umgengni starfsmanna á milli, reyna að mynda einskonar teymi sem myndu vinna saman, en meira um það á næstu dögum.

Ýmis konar þjónusta hefur verið skert og/eða flutt til heimilismannanna sjálfra eins og t.d. iðjuþjálfun. Með heimsóknarbanni er öllum heimsóknum listamanna og annarra þeirra sem koma inn til okkar dags daglega sjálfhætt. Í þessum efnum höfum við farið eftir leiðbeiningum frá landlæknisembættinu, sóttvarnarlækni og almannavörnum, semsagt okkar besta og færasta fólki, og ef þær leiðbeiningar breytast á einhvern hátt þá munum við að sjálfsögðu fara eftir því.

Í morgun, föstudag, fékk ég ánægjulegt símtal frá fulltrúa Hljómlistafélagsins okkar hér og er ráðgert að þau komi til okkar þegar viðrar eftir helgina og verði með tónlistaratriði út í garði hjá okkur, það er gott að eiga góða vini sem bjóða upp á þennan glaðning endurgjaldslaust, og svo er auðvitað Vignir okkar með söngstundir áfram en með eilítið breyttu sniði hvað staðsetningu og tímasetningar varðar eins og annað.

Að höfðu samráði þá höfum við ákveðið að opna á að fótaaðgerðarfræðingurinn okkar komi í hús til okkar eftir helgina og snyrti fætur þeirra heimilismanna sem þess hafa óskað. Hún mun þurfa að gæta alls hreinlætis eins og við starfsmenn að sjálfsögðu og hafa þann hátt á að fara til viðkomandi heimilismanns og snyrta fætur hans inn á herbergi viðkomandi.

Það er góður andi og samstaða innan starfsmannahópsins um að leysa þessi verkefni sem blasa við okkur á þessum erfiðu tímum og fyrir það vil ég þakka einlæglega. Heimiisfólki er full ástæða til að þakka fyrir sömuleiðis, viðfangsefninu er mætt að æðruleysi og skilningi og saman myndum við, heimilisfólk og starfsmenn Brákarhlíðar, magnaðan hóp að mínu mati.

Kæru vinir, við vitum í raun lítið um framhaldið og margt á eflaust eftir að koma okkur á óvart, eitthvað sem okkur datt ekki í hug að gæti gerst og við þurfum mögulega að leita nýrra leiða til að leysa málin dag frá degi. Við munum áfram fylgja öllum leiðbeiningum sem til okkar berast frá almannavörnum og fylgja jafnframt öllum ráðum sem til okkar berast hvað varðar hreinlæti og aðrar aðgerðir til að lágmarka hættu á smiti, hjálpumst öll að við það eins og kostur er , héreftir sem hingað til !

Ekki fleira að sinni,

Með vinsemd og ósk um góða helgi, hvort sem er í vinnu eða heimavið 🙂
Bjarki"

Svo mörg voru þau orð gott fólk 🙏 góða helgi og kærar þakkir fyrir góðar kveðjur til okkar, við getum þetta – saman !