Föstudagsmolar, 9.október 2020

Kæra heimilisfólk og aðstandendur,

Við erum svo lánsöm hér á starfssvæði Brákarhlíðar að það eru fá smit í samfélaginu og við í Brákarhlíð höfum enn sem komið er sloppið, við vonum svo sannarlega að svo verði áfram.  Sendum góðar kveðjur til kollega okkar sem eru að fást við þennan vágest og óskum þeim góðs gengis.

Við verðum áfram með heimsóknarbann sem tilkynnt var s.l. mánudaginn og stendur það a.m.k. fram til mánudagsins 19. október að óbreyttu.  Einungis er heimsóknir leyfðar í undantekingartilvikum við sérstakar aðstæður og er hvert tilvik metið fyrir sig, t.d. ef um veikindi heimilisfólks er að ræða.  Við minnum á og hvetjum til þess að notaður sé sá möguleiki að eiga myndasamtöl við ástvini, sumir heimilismenn eru með sína eigin tölvur og eins eru spjaldtölvur inn á hverju heimili sem aðgangur er að. Við förum fram á að heimilisfólk fari ekki burt af heimilinu, ekki í heimsóknir, ekki í verslunarferðir eða önnur erindi sem ekki eru bráðnauðsynleg. Mörgum veitist þetta erfitt og því viljum við hvetja ykkur aðstandendur til þess að vera heimilisfólki innan handar vanhagi þau um eitthvað, að Heiman eða úr verslunum.

Starfsfólk okkar stendur sig eins og hetjur alla daga og allir í þeim einbeitta „gír“ að verja heimilið og heimilisfólk eins og kostur er.  Við reynum að halda okkar rútínu innan veggja t.d. með söngstundum, jóga, hópastarfi og þvíumlíku og svo er auðvitað dásamlegt þegar við fáum skemmtilegar heimsóknir eins og þegar leikskólabörn frá Leikskólanum Uglukletti komu og sungu út í garði fyrir okkur núna í vikunni.  Fimmtudaginn 23. október n.k. munum við öðlast formlega vottun sem EDEN heimili og verður sú stund mun lágstemmdari en ella hefði orðið í venjulegu árferð, en við höldum okkar striki engu að síður.

Vinna við afmælis- og kynningarblað er í fullum gangi þessa dagana, í samstarfi við héraðsfréttablaðið Skessuhorn, og er stefnt að því að blaðið komu út í síðustu viku þessa mánaðar.  Þar verður sögu Brákarhlíðar gerð góð skil og sagt frá áherslum okkar í starfinu þessi misserin.  Með þessari útgáfu erum við að leitast við að kynna samfélaginu fyrir hvað heimilið hefur staðið fyrir síðustu 50 ár og fyrir hvað við stöndum í dag.

Kæra heimilisfólk, aðstandendur og aðrir vildarvinir okkar í Brákarhlíð, tímarnir sem við lifum eru sérstakir, ég vil þakka ykkur öllum fyrir skilning á þeim aðgerðum sem við höfum gripið til og fyrir þau samtöl sem við höfum átt, við heimilisfólk og þá sem hafa haft samband, það er okkur dýrmætt að að skynja og finna þann velvilja sem við mætum.

Að lokum þetta, okkur ber öllum skylda til að nálgast viðfangsefnið af ábyrgð, okkur sjálfum og samborgurum til heilla.  Virðum tilmæli sérfræðinganna sem um stjórntaumana halda og höldum í gleðina kæru vinir, þannig komumst við í gegnum þetta, saman !

Kær kveðja og góða helgi,

Bjarki Þorsteinsson

framkvæmdastjori Brákarhlíðar