Inga Dóra Halldórsdóttir ráðin framkvæmdastjóri

Inga Dóra Halldórsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri hjúkrunar- og dvalarheimilisins Brákarhlíðar í Borgarnesi. Tekur hún við starfinu af Birni Bjarka Þorsteinssyni sem ráðinn hefur verið sveitarstjóri Dalabyggðar. Inga Dóra hefur starfað sem framkvæmdastjóri Símenntunarmiðstöðvarinnar á Vesturlandi frá því árið 2006.
Alls bárust 17 umsóknir þegar starfið var auglýst. Stjórn Brákarhlíðar þakkar öllum þeim sem sóttu um stöðu framkvæmdastjóra og ánægjulegt að sjá hve mikill áhugi var á að starfa í Brákarhlíð.
Inga Dóra situr í stjórn Menntaskóla Borgarfjarðar, nú sem varaformaður stjórnar en var formaður árin 2019 þar til í júní síðastliðnum. Hún sat í stjórn Kvasis, samtaka fræðslu- og símenntunarmiðstöðva á Íslandi, sem formaður um tíma og einnig sat hún í stjórn Háskólans á Bifröst á árunum 2016 til 2022, þar af sem varaformaður stjórnar um tíma. Inga Dóra gegnir stjórnarformennsku Starfsendurhæfingar Vesturlands.
Inga Dóra lauk námi frá Háskóla Íslands með BA í félagsfræði, með atvinnulífsfræði sem þverfaglega grein, árið 2000 og framhaldsnámi frá háskólanum í Volda í Noregi árið 2002 í stefnumótun og stjórnun og flutti að því námi loknu í Borgarnes. Hún er gift Páli S. Brynjarssyni og eiga þau tvö uppkomin börn. Reiknað er með að Inga Dóra muni koma til starfa 1. október næstkomandi.
Stjórn Brákarhlíðar býður Ingu Dóru velkomna til starfa.