Í dag fóru fram bólusetningar gegn Covid-19 hjá heimilisfólki okkar í Brákarhlíð. Er það mikið gleðiefni að þeim áfanga sé náð. Fréttamaður RÚV var á staðnum þegar hafist var handa og mun líklega verða stutt innslag í kvöldfréttatímanum frá Brákarhlíð og öðrum hjúkrunarheimilum á landinu 😊 hér með eru myndir af hjúkrunarfræðingum HVE sem komu yfir til okkar og sáu um framkvæmdina í samstarfi við starfsmenn Brákarhlíðar.
Okkur þykir rétt að benda á að við höfum í huga að þetta er samt sem áður einungis fyrsta skrefið í átt að því að verja heimilið okkar fyrir Covid-19 þó áfanginn sé mikilvægur.
Eftir þrjár vikur verður seinni bólusetning hjá þeim sem fá þá fyrri í dag en ekki er orðið enn ljóst hvenær starfsmannahópurinn okkar fær bólusetningu.
Það má skipta þessu ferli sem er að hefjast í dag í fjögur þrep og þar til því fjórða er náð þurfum við áfram að fara með öllu að gát og þær sóttvarnarreglur sem verið hafa gilda áfram, grímuskylda, spritta hendur og allt það sem hamrað hefur verið á.
Við viljum árétta heimsóknarreglur þær sem nú eru í gildi og verða enn um sinn. Tveir gestir mega koma á gamlársdag og nýársdag og svo einn gestur tvisvar í viku f.o.m. 2.janúar.
Skrá þarf þá sem sjá um heimsóknir og viljum við biðla til ættingja, að gefnu tilefni, um að sjá til þess að kynna fyrir aðstandendum öðrum en þeim sem þetta sjá hvaða reglur eru í gildi hverju sinni.
Starfsfólk okkar er að gera sitt besta til að halda yfirsýn og viljum við biðla til ykkar um að aðstoða okkur við það. Aftur á móti ef einhver misbrestur er varðandi skráningu og/eða athugasemdir við verklag þá biðjum við ykkur um að vera í sambandi við stjórnendur heimilisins.
Að öðru leiti vísum við í útgefnar heimsóknarreglur sem gefnar voru út fyrir jólin og óskum ykkur öllum gleðilegra áramóta með þökk fyrir góð og vinsamleg samskipti á árinu sem er að líða um leið og við óskum ykkur öllum gleðilegs árs.
Með vinsemd