Góðan daginn kæru vinir okkar í Brákarhlíð
Við þökkum fyrir þau jákvæðu viðbrögð sem hafa til okkar borist í kjölfar þeirrar fordæmalausu ákvörðunar sem stjórnendur Brákarhlíðar stóðu frammi fyrir s.l. föstudagskvöld að óumflýjanlegt væri að loka fyrir allar heimsóknir til heimilismanna út af smithættu vegna COVID 19 veirunnar. Var sú ákvörðun tekin í kjölfar samráðs hjúkrunarheimilanna og Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu við sóttvarnarlækni og landlækni eftir að Neyðarstigi almannavarna hafði verið lýst yfir fyrr um daginn.
Svona ákvörðun hefur auðvitað mikil áhrif á daglegt starf. Þegar heimsóknir leggjast af breytist daglegt líf á hjúkrunarheimilum mjög mikið. Við höfum því verið að fara yfir þætti eins og iðjuþjálfun og félagsstarf sem nú er sinnt með öðrum hætti en alla jafna og sú starfsemi "hreyfanlegri" á þann hátt að starfsfólk úr vinnustofu fer nú um húsið með vissa afþreyingu.
Dagdvöl er ekki í boði nú meðan á heimsóknarbanni stendur né heldur er heimilt fyrir fótsnyrtingu og hársnyrtistofu að taka á móti gestum utanfrá þannig að áhrifin eru umtalsverð.
En lífið heldur áfram, við birtum hér nokkrar myndir sem teknar eru fyrr í dag af heimilisfólki og starfsmönnum við ýmiskonar samveru, allir una glaðir við sitt þó auðvitað sakni þeir heimsókna ástvina 🙏