Kæru vinir okkar í Brákarhlíð ! Við viljum byrja á að þakka ykkur öllum fyrir s…

Kæru vinir okkar í Brákarhlíð !

Við viljum byrja á að þakka ykkur öllum fyrir skilning og jákvæð viðbrögð við tilkynningu sem gefin var út 6.mars s.l.þar sem tilkynnt var um heimsóknarbann og síðan í kjölfarið við ýmsum öðrum breytingum á daglegu starfi hér hjá okkur í Brákarhlíð sem gerðar hafa verið síðan 6.mars.

Við fylgjumst grannt með þróun mála varðandi COVID 19 og hvetjum alla til þess að fara áfram að öllum tilmælum sóttvarnarlæknis, landlæknis og almannavarna.
Ef til þess kemur, sem við vonum að verði ekki, að COVID 19 greinist hér hjá okkur í Brákarhlíð þá erum við í stakk búin til þess að takast á við það verkefni.
Stjórnendur Brákarhlíðar hittast og fara yfir áherslur og viðbragð á hverjum virkum morgni og svo verður áfram meðan þurfa þykir. Starfsmenn eru í kjölfarið upplýstir ef um breyttar áherslur er að ræða, þetta viðfangsefni okkar, viðbrögð við COVID 19, er nýtt af nálinni og við, eins og aðrir, erum að læra og laga okkur að þessum breytta raunveruleika. Vonandi auðnast okkur það vel og sömuleiðis ykkur öllum sem þennan pistil lesið.

Heimsóknarbann er í gildi í Brákarhlíð og verður áfram. Varðandi heimilismenn og ferðir þeirra úr húsi þá mælumst við eindregið til þess að ferðir þeirra úr húsi hjá okkur séu í lágmarki. Við biðjum aðstandendur um að passa upp á að þeir fari ekki í fjölmenni og/eða á opinbera staði samanber t.d. verslanir og að alls hreinlætis sé gætt í hvívetna og eins metið hverja viðkomandi hittir m.t.t. sýkingar- og smithættu. Er þetta gert með hagsmuni heimilismanna okkar að leiðarljósi.
Eins viljum við biðja aðstandendur um að lágmarka sendingar til heimilismanna, heimilið er vel sett með mat og annað og erum við t.a.m. að brjóta eilítið upp veitingar með kaffi og þ.h. þannig að svolítil tilbreyting sé í boði.

Eins er það með afþreygingu og dagskrá hér innanhúss. Starfsmenn hjálpast að við að stytta heimilisfólki stundir og verðum við t.d. með aukamönnun yfir helgina varðandi afþreyingu.

Dagdvöl hjá okkur er lokuð, ástæðan fyrir því er sú að þeir sem koma til okkar í dagdvöl stíga í raun inn í daglega rútínu heimilisfólks og því var það ákveðið, m.t.t. smithættu, að loka á dagdvölina a.m.k. að sinni.

Kæru vinir, lífið heldur áfram og við lifum í þeirri trú að vorið sé handan við hornið, með nýjum og skemmtilegum viðfangsefnum. Við hvetjum ættinga heimilismanna til þess að hringja í sitt fólk og ef það eru ábendingar til okkar þá hikið ekki við að hringja eða senda tölvupóst á brakarhlid@brakarhlid.is og við verðum i sambandi um hæl.

Góða helgi