Kæra heimilisfólk, aðstandendur og aðrir velunnarar okkar í Brákarhlíð,
Við viljum þakka fyrir góðar kveðjur og hlýja strauma til heimilisfólks og okkar starfsmanna í kjölfar tíðinda um Covid smit á heimilinu í síðustu viku.
Í gær, mánudaginn 10.janúar, voru tekin PCR sýni hjá öllu heimilisfólki fyrir utan þá sex heimilismenn sem greindust með Covid í síðustu viku og sömuleiðis hjá öllum starfsmönnum fyrir utan þá fjóra sem greindust einnig með Covid. Þau ánægjulegu tíðindi bárust seint í gærkvöldi og nótt að allir þeir sem tekið var sýni úr, alls 120 manns, reyndust neikvæðir.
Við erum afar þakklát fyrir einstök viðbrögð og samheldni allra sem að verkefninu koma, heimilisfólki, frábærum starfsmannahópi okkar, öðrum viðbragðsaðilum sem veittu okkur ráðgjöf og einnig aðstandendum og þeim skilningi sem við mættum þaðan.
Staðan er afskaplega viðkvæm enn, bæði hjá okkur og í samfélaginu öllu, því munum við fara afar varlega í allar afléttingar á heimsóknartakmörkunum og í almennri starfssemi hér innanhúss næstu daga. Dagdvöl og önnur utanaðkomandi starfssemi fellur niður þar til annað verður ákveðið.
Varðandi heimsóknir þá mun húsið áfram verða læst en við munum heimila eina heimsókn á dag til heimilismanna sem heimili eiga á Dal, Neðri-Læk og Hvammi frá og með miðvikudeginum 12. janúar, skrá þarf hver það er sem kemur og þarf sá sami að koma a.m.k. næstu daga, ekki verða heimilaðar breytingar nema í algerum undantekningartilfellum. Að óbreyttu vonumst við til að geta opnað á heimsóknir til heimilismanna á Efri-Læk á föstudaginn.
Heimsóknartími er kl. 14:00 til kl. 18:00.
Við biðjum aðstandendur, í samráði við heimilismenn, um að ákveða sín á milli hver það er sem sér um heimsóknir og þegar það liggur fyrir að hafa samband við viðkomandi heimili til þess að skrá hver það er sem kemur. Símanúmer heimilanna eru: Dalur og Neðri-Lækur eru með 432-3182 og Hvammur er með 432-3183.
Allir gestir sem koma í hús þurfa að gæta allra sóttvarna í hvívetna, jafnframt að bera grímu, sem við í Brákarhlíð útvegum, allan tímann sem verið er í heimsókn.
Jafnframt biðjum við um að gestir gangi beint til herbergis viðkomandi heimilismanns og dvelji þar á meðan á heimsókn varir.
Þessar takmarkanir gilda þar til annað verður tilkynnt.
Að endingu ítrekum við þakkir fyrir skilning og vinsemd í þessum vandasömu aðstæðum og vonum að það góða samstarf og samskipti sem verið hefur haldist áfram, hvort sem er á Covid tímum eða þegar allt er fallið í ljúfa löð sem vonandi verður sem fyrst.
Með vinsemd og virðingu,
Borgarnesi 11. janúar 2022
Stjórnendur Brákarhlíðar