10 ár frá vígslu hjúkrunarálmu

Þann 14. júlí árið 2012 var vígð nýbyggð hjúkrunarálma við Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi, DAB, og þann sama dag fékk heimilið formlega nafnið Brákarhlíð. Þessi dagur markaði á vissan hátt kaflaskil í starfssemi heimilisins hvað varðaði allan aðbúnað. Í kjölfarið hófst vinna við endurbætur á eldri húsakosti.
Í tilefni þessara tímamóta, 10 ára afmælis, þá fengum við Geirabakarí til þess að baka fyrir okkur tertur sem verða á boðstólum fyrir heimilisfólk og starfsmenn þannig að hér verður góðgæti á boðstólum í dag, 14. júlí.
Til fróðleiks og upprifjunar birtum við hér ræðu sem þáverandi heilbrigðis- og félagsmálaráðherra, Guðbjartur heitinn Hannesson, flutti við vígsluathöfnina 14. júlí 2012.
„Kæru Borgfirðingar og Mýramenn, góðir gestir.
Ég óska íbúum Borgarbyggðar innilega til hamingju með nýja og glæsilega hjúkrunarálmu hér við Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi.
Stundum leiða þrengingar til nýrra tækifæra. Þannig var það þegar Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi félags- og tryggingamálaráðherra, ákvað að mæta samdrætti í byggingariðnaði með því að auka atvinnu en um leið bæta aðstöðu aldraðra í landinu, fjölga einbýlum og stækka rými hvers og eins heimilismanns á hjúkrunarheimilunum.
Þannig var tekið upp samstarf við sveitarfélög í landinu og hafin bygging margra nýrra hjúkrunarheimila. Bæði sveitarsjóðir og ríkissjóður áttu í vandræðum með að ná endum saman. Ákveðið var því að fara svokallaða leiguleið, þar sem Íbúðalánasjóður lánar sveitarsjóði fé til byggingar heimilanna en um leið skuldbindur ríkið sig að greiða fyrir framkvæmdina með leigugreiðslum.
Ég minnist þess þegar ég kom í landsmálapólitík árið 2007, þá heimsótti ég meðal annars Dvalarheimilið hér í Borgarbyggð. Maður þurfti ekki að vera lengi á heimilinu til að finna þann góða anda sem hér ríkir og þann mikla dugnað og þjónustuvilja sem starfsfólkið sýndi. En um leið kom mér á óvart hve illa var búið að mörgum heimilismönnum og starfsfólki, þar sem herbergi voru lítil, þröngar hurðir og jafnvel eitt salerni fyrir mörg herbergi.
Þeir aðilar sem reka heimilið, sjálfseignarstofnunina, höfðu lagt áherslu á að bæta aðstöðuna og höfðu áætlun um hvernig, harðast rak síðan á eftir aðgerðum verkalýðsfélagið hér á staðnum, sem meðal annars hafði gefið höfðinglega gjöf sem var skilyrt að ráðist yrði í framkvæmdir.
Það var því sérstakur ánægjudagur þann 26. maí 2010 þegar Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, og Páll S. Brynjarsson, sveitarstjóri í Borgarbyggð, undirrituðu samning um byggingu 32 rýma hjúkrunarálmu fyrir aldraða í Borgarnesi.
Hjúkrunarálman leysir að hluta til af hólmi eldra húsnæði heimilisins en jafnframt var ákveðið að gera endurbætur á því.
Hjúkrunarrýmum fjölgar ekki með nýbyggingunni, heldur fela framkvæmdirnar í sér að aðstaða heimilisfólks stórbatnar og færist til nútímalegs horfs eins og brýnt var orðið.
Nýja heimilið er byggt eftir þeim viðmiðum velferðarráðuneytisins um aðbúnað íbúa á hjúkrunarheimilum og er byggt eftir hinni svokölluðu leiguleið, eins og áður sagði, þ.e. heimamenn byggja og ríkið leigir til 40 ára.
Fyrsta skóflustunga að hjúkrunarheimilinu var tekin 26. ágúst 2010. Hana tóku Herdís Guðmundsdóttir, elsti íbúi heimilisins, og Þórður Kristjánsson, sem sat í stjórn DAB í um 20 ár, með dyggri aðstoð þáverandi félags- og tryggingamálaráðherra, Árna Páls Árnasonar.
Byggingafélag Borgfirðinga ehf. sá um framkvæmdir, en það var með lægsta verðið í verðkönnun sem stjórn Dvalarheimilisins gerði.
Arkitekt hússins er Einar Ingimundarson. VSÓ Ráðgjöf sá um hönnun burðarvirkis, loftræstikerfis og raflagna. Einingateikningar voru unnar af Teiknistofunni Óðinstorgi. Eftirlit og raflagnateikingar í einingar voru í umsjá VERKÍS. Stigar, loftaplötur og veggeiningar voru framleiddar hjá Loftorku sem jafnframt sá um að reisa húseiningar og framleiðslu staðsteyptar steypu.
Þannig hafa verið slegnar tvær flugur í höggi, að skapa atvinnu og bæta aðstöðu og aðbúnað íbúa og starfsfólks.
Í vor ákvað ég að fenginni tillögu frá stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra að veita Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi 118 milljónir króna úr sjóðnum til endurbóta á núverandi húsakosti heimilisins. Framlagið nemur um fjórðungi af áætluðum heildarkostnaði við endurbæturnar. Byggingafélag Borgfirðinga ehf. annast einnig þessa framkvæmd.
Það er til fyrirmyndar að þau sveitarfélög sem aðild eiga að stjórn heimilisins hafa undanfarna áratugi lagt heimilinu til fé í svokallaðan húsnæðissjóð sem er eyrnamerktur til endurbóta og viðhalds á húsnæði heimilisins. Framlag hvers sveitarfélags er reiknað út frá íbúafjölda í hverju þeirra og nemur 2.500 krónum á ári fyrir hvern íbúa. Þetta skilst mér að svari um 10 milljónum króna á ári og munar um minna.
Vel skal vanda það sem lengi á að standa. Þetta sýnist mér hafa verið leiðarljós framkvæmdanna hér. Heimilið mun án efa þjóna vel íbúum Borgarbyggðar á komandi árum og áratugum.
Ég vil þakka bæjaryfirvöldum í Borgarbyggð, stjórn Byggingafélags Borgfirðinga ehf. og öllum verktökum og þeim sem unnið hafa að byggingunni fyrir þeirra störf og óska þeim til hamingju með gott verk. Þá þakka ég mínu fólki í ráðuneytinu og hjá opinberum stofnunum sem unnið hefur að verkinu.
Ég veit að nokkrir endar eru óhnýttir, en við reynum að hnýta þá hvern af öðrum, svo þeir haldi til framtíðar.
Ég óska íbúum heimilisins til hamingju með bætta aðstöðu, sem og starfsfólki, um leið og ég þakka því fyrir frábær og óeigingjörn störf í þeirri mikilvægu þjónustu sem það sinnir.
Þá óska ég ykkur öllum, íbúum Borgarbyggðar, til hamingju og samgleðst ykkur innilega.
Ég vona að við eigum gott samstarf um framhaldið og treysti á og veit að þjónusta við aldraða verður enn betri hér á svæðinu.
Megi gæfa og blessun fylgja nýrri byggingu.“