Kæru vinir !
 Nú eru fjórar vikur síðan heimsóknarbann var sett á í Brákarhlíð o...

Kæru vinir ! Nú eru fjórar vikur síðan heimsóknarbann var sett á í Brákarhlíð o…

Kæru vinir !

Nú eru fjórar vikur síðan heimsóknarbann var sett á í Brákarhlíð og ljóst að það mun vara áfram um hríð. Ég vil þakka fyrir þann mikla skilning sem þessi ráðstöfun hefur mætt frá heimilisfólki og aðstandendum, við deilum hér á síðunni okkar fróðlegri grein sem Helga Hansdóttir, öldrunarlæknir, ritaði þar sem hún útskýrir ástæður og rök fyrir þessari aðgerð.

Lífið hefur almennt gengið vel þessar vikur í Brákarhlíð og þökkum við hlýjar og góðar kveðjur sem heimilinu hafa borist sem og gjafir sem hafa borist. Það er ómetanlegt að finna jákvæða strauma úr samfélaginu í þessum sérstöku aðstæðum. Við höfum, eins og áður hefur komið fram, endurskipulagt mikið í okkar innra starfi vegna aðstæðna og reynum að takamarka samgang á milli einstakra heimila og á milli starfsmanna eins og kostur er. Starfsmannahópurinn hefur tekið breyttu vaktaplani og ýmsum öðrum innri breytingum af miklu æðruleysi og er það dýrmætt að hafa yfir jafn öflugum og samhentum hóp að ráða eins og raun ber vitni.

Við erum komin með í notkun þrjár spjaldtölvur sem eru staðsettar eru ein á hverri hæð. Starfsmenn okkar hafa verið að aðstoða heimilisfólk við að eiga samtöl, með mynd, við sína ástvini og hefur það mælst vel fyrir. Nokkrir heimilismenn eiga sína eigin spjaldtölvu og getum við eftir föngum reynt að aðstoða þá við að taka myndsamtöl ef áhugi er á, bið ykkur aðstandendur sem þetta lesið að íhuga þennan möguleika.

Við höfum lagt af samkomur í salnum okkar og þar með hafa söngstundirnar sem þar hafa verið haldnar lagst af að sinni. Reynt er að fremsta megni að skapa aðstæður til samveru og hreyfingar á hæðunum hverri og einni og einnig hafa starfsmenn iðju og vinnustofu fært sína starfsemi m.t.t. þess. Einnig er starfsfólk duglegt að sækja afþreyingarefni ýmiskonar, t.d. tónleika og skemmtiþætti, á efnisveitur þannig að við nýtum tæknina eins og kostur er. Hér með eru nokkrar myndir sem teknar voru í morgun af heimilisfólk, og starfsmönnum, við leik og störf, við birtum allar þessar myndir með góðfúslegu samþykki okkar heimilisfólks.

Nú nálgast páskahátíðin og munum við fagna páskum eins og vera ber, skreyta heimilið, borða veislumat og hafa það gott í góðum hópi 😊
Ekki fleira að sinni kæru vinir, ef einhverjar spurningar eru þá hvetjum við ættinga til að hafa samband.

Með vinsemd,

f.h. Brákarhlíðar
Bjarki Þorsteinsson
framkvæmdastjóri