Gleðilegt sumar kæru vinir okkar í Brákarhlíð og takk fyrir veturinn viðburðarríka.
Nú höfum við loks aflétt öllum takmörkunum vegna Covid en viljum eftir sem áður biðja gesti um að koma ekki í heimsókn ef einhverra flensueinkenna er vart, takk.
Covidtíminn hefur nú varað í rúm 2 ár og verið bæði lærdómsríkur en einnig reynt mjög á starfsemi velferðarkerfisins alls. Ég vil nota þetta tækifæri bæði til að hrósa starfsfólki Brákarhlíðar í hástert fyrir frábæra frammistöðu og mikla fórnfýsi á þessum tíma og eins heimilisfólki og aðstandendum fyrir það hvernig við náðum að vinna okkur í gegnum þetta tímabil með samheldni að vopni og fyrir þann skilning sem við mættum í hvívetna, takk fyrir það. Þessa tímabils verður minnst og sennilega verður tímatal okkar sumra á næstunni miðað út frá „fyrir og eftir“ Covid.
Ég vil nefna hér að okkur vantar að full manna okkar góða starfsmannahóp, bæði í sumar og einnig til frambúðar, ef þið vitið af kæru vinir einhverjum sem hefði áhuga á að vinna með öflugum starfsmannahóp í því gefandi starfi sem hér um ræðir þá endilega bendið viðkomandi á að hafa samband eða setja inn umsókn á heimasíðunni okkar, brakarhlid.is
Hjúkrunarheimilin á Íslandi hafa verið í ólgusjó að ákveðnu marki undanfarin ár rekstrarlega en nú hillir vonandi undir betri tíð hvað það varðar í kjölfar nýs samnings sem undirritaður var í lok mars á milli hjúkrunarheimilanna og Sjúkratrygginga Íslands f.h. heilbirgðisráðuneytisins. Aðkoma heilbrigðisráðherra að því samkomulagi var til eftirbreytni og vonandi raungerist sá stuðningur í framhaldinu af hálfu ráðuneytis og Sjúkratrygginga.
Til upplýsinga þá verður ársfundur Brákarhlíðar haldinn á fimmtudaginn kemur, þann 28. apríl kl. 15:00 í samkomusalnum. Fundurinn er opinn og þar verður eins og fyrri ár kynnt afkoma heimilisins á liðnu ári og farið yfir störf stjórnar heimilisins.
Ég vona að við eigum gott sumar í vændum kæru vinir, stöndum saman sem fyrr, okkur öllum til heilla.
f.h. Brákarhlíðar,
Björn Bjarki Þorsteinsson
framkvæmdastjóri