Brákarhlíð og starfsmenn heimilisins hófu núna í vikunni formlega það ferðalag a...

Brákarhlíð og starfsmenn heimilisins hófu núna í vikunni formlega það ferðalag a…

Brákarhlíð og starfsmenn heimilisins hófu núna í vikunni formlega það ferðalag að öðlast vottun sem Eden heimili. 25 starfsmenn, af tæplega 80, sátu þriggja daga námskeið í þetta sinn og í janúar n.k. verða næstu 25 starfsmenn á samskonar námskeiði og svo koll af kolli. Stefnt er að því að næsta vor öðlist Brákarhlíð hina formlega vottun sem Eden heimili.

Látum hér fylgja með nokkrar myndir frá námskeiðinu sem þær Rannveig Guðnadóttir, hjúkrunarfræðingur og forsvarsmaður Eden á Íslandi, Berglind Indriðadóttir, iðjuþjálfi og einn af forsvarsmönnum Farsællar öldrunar-Þekkingarmiðstöðvar, og Helga Erlingsdóttir, hjúkrunarfræðingur og hjúkrunarforstjóri Öldrunarheimila Akureyrar, sáu um.

Grunngildi Eden hugmyndafræðinnar eru umhyggja, virðing, samvinna og gleði og á þeim gildum starfa þau heimili sem Eden vottun hafa fengið.

Við í Brákarhlíð höfum í nokkur ár horft til Eden hugmyndafræðinnar og afar margt í okkar starfi og áherslum er í þeim anda þannig að skrefið er kannski ekki mjög stórt fyrir utan það að það verður mikil viðurkenning á okkar starfi og áherslum að öðlast formlega alþjóðlega vottun.

En hvað er þetta Eden ?
Eden Alternative eru alþjóðleg samtök sem hafa að markmiði að breyta viðhorfi og menningu í tengslum við umönnun aldraðra. Að hverfa sem mest frá frá stofnanavæddri menningu til eflandi og hvetjandi menningar sem er hlýleg og mannúðleg.

Upphafið að Eden er það að um það bil fyrir aldarfjórðungi síðan hóf læknirinn Bill Thomas að vinna sem yfirlæknir á hjúkrunarheimili í Bandaríkjunum en hann hafði fram að því starfað á bráðadeild spítala.
Hann sinnti sínu starfi af alúð og einn daginn þegar hann var á stofugangi urðu straumhvörf í þeim hugmyndum sem hann hafði um hjúkrunarheimili. Hann settist niður hjá roskinni konu sem var rúmföst og spurði hana hvernig henni liði. Konan hikaði andartak en horfði svo beint í augu hans og sagði: Ég er fjarska einmana. Við því átti læknirinn engin ráð og engin lyf. Orð gömlu konunnar fylgdu honum og einn daginn ákvað hann að setjast niður á setustofu öldrunarheimilisins og vera þar þegar hlé gafst frá vinnu. Reyna á sjálfum sér hvernig það væri að vera heimilismaður á hjúkrunarheimili. Hann komst að því að þrennt var áberandi hjá heimilisfólkinu fyrir utan alla krankleika. Þetta voru einmanaleiki, leiði og vanmáttarkennd og það hafa orðið lykilorð í Eden hugmyndafræðinni því kjarninn er að sporna við leiða, einmanaleika og vanmáttarkennd. Bill Thomas fékk tækifæri til að stofna hjúkrunarheimili skömmu eftir þennan eftirminnilega atburð og hefur síðan þróað hugmyndafræðina ásamt konu sinni Jude. Heimilin sem fylgja hugmyndafræðinni skipta nú orðið hundruðum víða um heim.
Á Íslandi eru nú komin með vottun Örldrunarheimili Akureyrar, Mörk í Reykjavík og Ás í Hveragerði.