Ágætu aðstandendur og ástvinir heimilisfólks í Brákarhlíð,
Eins og öllum er kunnugt um hefur ríkt algert heimsóknarbann inn á hjúkrunarheimili landsins frá 6.mars s.l. Nú í dag, 22.apríl, á síðasta degi vetrar, voru á fundi almannavarna kynnt fyrstu skref varðandi afléttingu á heimsóknarbanni og öðrum þáttum sem taka munu gildi frá og með 4.maí. Anna Birna Jensdóttir, framkvæmdastjóri Sóltúns, var fulltrúi okkar hjúkrunarheimilanna á fundinum og kynnti þessi fyrstu skref um leið og hún færði Víði Reynissyni, afmælisbarni dagsins, köku að gjöf frá Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu og öllum starfsmönnum hjúkrunarheimila, vel til fundið 🌞
Heimsóknir verða leyfðar frá og með 4. mai næstkomandi en með töluverðum takmörkunum. Þó mikið hafi áunnist í baráttunni gegn COVID-19 erum við ekki komin í höfn og sýna þarf ítrustu varkárni og virða sóttvarnaráðstafanir í heimsóknum. Einnig er nauðsynlegt að takmarka þann fjölda sem kemur inn í heimilið á hverjum tíma. Vonir eru bundnar við að heimsóknir verði rýmkaðar enn frekar í júní 2020.
Eins og fyrr sagði þá mun frá 4. maí nýtt verklag taka gildi og mun einum aðstandanda verða heimilt að heimsækja sinn ástvin, á fyrirfram ákveðnum tíma og með öðrum ströngum skilyrðum sem kynnt verða á næstu dögum. Stefnum við að því að kynna verklag okkar miðvikudaginn 29.apríl n.k. á heimasíðu, www.brakarhlid.is og facebook síðu Brákarhlíðar.
Dagdvöl mun enn um sinn verða lokuð sem og hágreiðslustofa og fótsnyrting fyrir öðrum en heimilisfólki. Hópaskipting á meðal starfsmanna mun verða við lýði út maí mánuð.
Ef einhverjar spurningar eru varðandi ofangreint þá vinsamlegast sendið tölvupóst á framkvæmdastjóra heimilisins á netfangið bjarki@brakarhlid.is eða hafið samband í síma 660-8245.
ATHUGIÐ: Ef smit vegna COVID-19 aukast aftur, eða smit vegna annarra smitsjúkdóma, munu tilslakanir á heimsóknarbanni ganga til baka og reglur verða hertar á ný.
Við í Brákarhlíð viljum koma á framfæri þökkum fyrir skilning á sérkennilegum aðstæðum, nú sér vonandi fyrir endann á þessari stöðu en við þurfum öll að hjálpast að við að vanda okkur við þessi skref sem nú eru í vændum.
Að endingu viljum við þakka fyrir veturinn, hann endaði á sérkennilegum nótum í samfélaginu öllu en nú tökum við brosandi á móti sumri með von í hjarta um gott og gleðilegt sumar 🌞🌞🌞