Það var stór dagur hjá okkur í Brákarhlíð í dag þegar heimilið og starfsmenn þes...

Brákarhlíð hlýtur EDEN vottun

[ad_1]

Það var stór dagur hjá okkur í Brákarhlíð í dag þegar heimilið og starfsmenn þess tóku formlega við vottun sem alþjóðlegt EDEN heimili. Flaggað var í tilefni dagsins og tertur fengnar frá Geirabakarí. Samkoman var mun látlausari en í venjulegu árferði hefði orðið, við munum gera okkur glaðan dag síðar þegar aðstæður leyfa enda fullt tilefni til þegar viðurkenning sem þessi fæst.

Rannveig Guðnadóttir, verkefnastjóri Eden á Íslandi, kom í hús og afhenti formlega staðfestingu á því að Brákarhlíð sé orðið EDEN heimili. Hér á eftir er hluti af ræðu Rannveigar við þetta tilefni:

”Kæra heimilisfólk og starfsmenn Brákarhlíðar.

Fyrir hönd Eden alþjóðasamtakanna óska ég Brákarhlíð hjartanlega til hamingju með að vera nú formlega skráð og vottað Eden heimili.
Með þessari alþjóðlegu viðurkenningu sýnir Brákarhlíð Íslandi og Eden alþjóðasamstarfinu allt það góða og frábæra faglega og persónulega starf sem hér er unnið í góðu húsnæði og fallegu umhverfi.

Starfsemi Brákarhlíðar leggur rækt við persónulega samvinnu og samskipti á milli íbúa, aðstandenda og starfsfólksins sem starfar á heimilum fólksins sem hér býr.
Það er einmitt einn af kjarnanum í Eden hugmyndafræðinni að starfsfólkið vinnur á heimili íbúa, þar sem borin er virðing fyrir persónulegum einkennum, viðhorfum og sjálfræði hvers og eins.

Mjög góð umfjöllun er um Eden hugmyndafræðina í viðtali við Jórunn hjúkrunarforstjóra Brákarhlíðar í afmælisriti ykkar í tilefni 50 ára afmælis Brákarhlíðar, hennar umfjöllun sýnir vel hve allt starfsfólk þekkir vel og skilur á eðli og áhrif Eden viðhorfa hér í starfseminni.

Áhugaverð viðtöl í afmælisritinu sýna einnig upphaf, þróun og fjölþætta starfsemi Brákarhlíðar. Þar kemur vel fram að frá upphafi hefur verið unnið metnaðarfullt, persónulegt og faglega gott starf. Eden hugmyndafræðin byggir nú ofan á það sem fyrir er og leiðir starfsemina markvisst áfram vegferðina að áframhaldandi góðu starfi þar sem allir ganga í takt, öruggum skrefum í vegferð sem engan enda tekur.

Eden Alternative er lögvernduð hugmyndafræði þar starfsemin einkennist af margvíslegri kennslu og ráðgjöf um þróun menningar og persónumiðaðrar umönnunar, stuðnings og þjónustu við aldraða sem og fólks á öllum aldri sem þarf umönnun og stuðning til að geta lifað sínu dags daglega lífi lifandi með virðingu og reisn.

Eden hugmyndafræðin hefur náð fótfestu víða í heiminum og má þar nefna lönd eins og auðvitað Bandaríkin, þar sem Eden hugmyndafræðin varð til árið 1994, síðan hefur hugmyndafræðin á þessum tæpu 26 árum breiðst út til Kanada, Englands, Austurríkis, Danmerkur, Færeyja, Sviss, Þýskalands, Ítalíu, Spánar, Ástralíu, Suður Ameríku, Eyjarinnar Mauritius, Kína og Suður Kóreu, auk Íslands.

Til Íslands barst Eden til okkar árið 2008 með námskeiði sem haldið var á Akureyri að frumkvæði þriggja kvenna sem sótt höfðu Eden námskeið til Danmerkur.
Upphafið að Eden vegferðinni hófst svo fljótlega hér í Brákarhlíð eftir að tvær úr forystusveit heimilisins, þær Jórunn og Halla, sóttu Eden námskeið 2010 í Reykjavík, það er því vel við hæfi eftir 10 ára þróunarstarf að Brákarhlíð öðlist þessa viðurkenningu hér í dag”.

Stjórnendur Brákarhlíðar tóku einnig til máls og lýstu ánægju með að þessi áfangi væri í höfnog þökkuðu Rannveigu og hennar samstarfsfólkið fyrir samstarfið og aðstoðina, áfram þarf að þróa starfið og vinna í takt við EDEN hugmyndafræðina og vonandi tekst það vel hér eftir sem hingað til.

Hér með eru nokkrar myndir sem teknar voru. Gætt var þess að allir væru með grímur nema rétt á meðan myndartaka fór fram.

Á myndunum eru, auk Rannveigar Guðnadóttur frá EDEN samtökunum þau Halla Magnúsdóttir forstöðumaður þjónustusviðs, Jórunn María Ólafsdóttir forstöðumaður hjúkrunarsviðs, Guðríður Ringsted hjúkrunarfræðingur, Margrét Stefánsdóttir hjúkrunarfræðingur og Bjarki Þorsteinsson framkvæmdastjóri.




[ad_2]