Ágætu heimilismenn og aðstandendur.
Jólahátíðin er mikil fjölskylduhátíð og á sérstakan sess í hjörtum flestra. Við í Brákarhlíð höfum í gegnum árin litið til jólahátíðarinnar með mikilli gleði og tilhlökkun og fundist mikilvægt að gera allt sem við getum til að þessir dagar verði sem hátíðlegastir fyrir heimilismenn, aðstandendur og starfsfólk.
Þetta árið er ljóst að jólahátíðin verður ekki með hefðbundnu sniði. Covid hefur haft áhrif á líf okkar allra, regluleg samvera hefur farið úr skorðum og miklar hömlur hafa verið settar á öll samskipti. Við munum leggja okkur fram við að gera dagana sem hátíðlegasta hér hjá okkur og vonum að öllum líði sem best við þær aðstæður sem uppi eru.
Sóttvarnaryfirvöld hafa lagt ríka áherslu á að við „höldum þetta út“ og búum til okkar eigin „jólakúlu/jólavini“ og takmörkum þann fjölda sem við hittum næstu vikurnar.
Nú styttist í að bólusetning gegn Covid hefjist og því teljum við fullt tilefni til þess að við hjálpumst öll að og höldum áfram að verja heimilið fyrir Covid. Þess vegna m.a. verður því miður ekki hægt að bjóða maka eða öðrum ættingjum að borða í Brákarhlíð á aðfangadagskvöld eða hina jóladagana.
Það sama á við um gamlársdag og nýársdag.
Mikilvægt er að hafa í huga að njóta samveru, hátíðleika og væntumþykju þótt hátíðarkvöldverður sé ekki snæddur saman. Samveran sjálf er svo mikilvæg. Þið getið skapað ykkar eigin hátíðar- og jólastund. Tökum sem dæmi að hægt er að sitja saman inn á herbergi íbúa og opna jólapakka, hlusta á jólatónlist og njóta hátíðleikans og þess að vera saman:
Því biðlum við til heimilismanna, jafnt sem ættingja, að leggja eigin hagsmuni til hliðar fyrir hagsmuni heildarinnar.
Almannavarnir og sóttvarnaryfirvöld hafa gefið út tilmæli til hjúkrunarheimila landsins þar sem mælt er eindregið gegn því að íbúi fari út af heimilinu til ættingja sinna um hátíðarnar. Ef íbúi fer út af heimilinu þarf hann að fara í sóttkví í 5 daga á heimili aðstandanda. Að lokinni 5 daga sóttkví þarf íbúi að fara í Covid-sýnatöku og fá neikvæða niðurstöðu áður en heimild er veitt til að koma aftur inn á hjúkrunarheimilið.
Athugið að eftirfarandi heimsóknarreglur munu alltaf þurfa að taka mið af stöðu faraldursins í samfélaginu og gætu því breyst fram að jólum og um hátíðina.
Eftirfarandi heimsóknareglur gilda um jól og áramót ef ástand í samfélaginu leyfir:
Vinsamlegast skoðið vel og mikilvægt að aðstandendur ræði sín á milli og miðli upplýsingum þannig að ekki skapist misskilningur 🙏
Eftir hádegi á aðfangadag og gamlársdag verður heimilið opið fyrir heimsóknir milli kl 13:00-17:30.
Eftir að heimilisfólk og starfsfólk hafa snætt hátíðarkvöldverðinn á aðfangadagskvöld er heimilið opið fyrir fyrirfram bókaðar heimsóknir milli kl. 19:30-21:30.
Njótið rafrænna samskipta. Sá sem kemur í heimsókn getur tengst öðrum ættingjum í gegnum netið. Þannig er hægt að skapa hátíðlega samverustund með fleirum en heimsóknargestinum sjálfum.
Tveir gestir hafa leyfi til að heimsækja hvern íbúa aðfangadag (24. des), jóladag (25. des) og annan í jólum (26. des). Sama á við á gamlársdag (31.des) og nýársdag (1.jan).
Sömu tveir gestir mega koma þessa 3 daga um jól, ef skipt er um heimsóknargest fyrir áramót er mikilvægt að líði a.m.k. 2 dagar á milli heimsókna þessara tveggja teyma. Mikilvægt er að láta vita ef skipt verður um heimsóknargest.
Aðra daga gilda sömu heimsóknarreglur og verið hafa, einn gestur skráður til hvers og eins heimilismanns en nú á milli kl. 13:00 og 17:30, sá þarf að vera annar tveggja gesta um jól og áramót.
Börn undir 18 ára hafa leyfi til að koma í heimsókn, en þá teljast þau annar af þessum tveimur gestum.
Munið að spritta hendur við komu og áður en þið yfirgefið heimilið.
Allir gestir þurfa að koma með andlitsgrímu (maska). Óheimilt er að koma með taugrímu.
Vinsamlega hafið grímuna á ykkur allan tímann á meðan heimsókn stendur.
Vinsamlega farið beint inn á herbergi íbúa, ekki stoppa og spjalla á leiðinni. Ef íbúi er ekki inni á herbergi þá biðjið þið starfsfólk að sækja hann, ekki gera það sjálf.
Virðið 2ja metra regluna og forðist snertingu við íbúa.
Heimilt er að fara með íbúa út í göngutúr í nærumhverfi á meðan heimsókn stendur.
Ekki er heimilt að fara í bíltúr eða heimsókn með heimsóknargesti sínum.
Undanþága frá þessu er aðeins veitt við mikil veikindi íbúa og þarf leyfi frá vakthafandi hjúkrunarfræðing.
Vinsamlega EKKI koma inn á Brákarhlíð ef:
Þú ert í sóttkví eða einangrun.
Þú bíður eftir niðurstöðu úr sýnatöku.
Þú, eða annar fjölskyldumeðlimur, ert með flensulík einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang o.fl.).
Fólk sem er að koma erlendis frá verður að hafa lokið sóttkví og neikvæð niðurstaða seinni sýnatöku þarf að liggja fyrir. Mælst er til þess að 3 dagar til viðbótar verði látnir líða áður en komið er í heimsókn inn á hjúkrunarheimili.
Við óskum eftir að fá upplýsingar um það hver/hverjir munu koma til okkar fólks í heimsókn um jól fyrir 22.desember í síma 692-1876, á dagvinnutíma, eða á netfang halla@brakarhlid.is, hægt verður að gera breytingar eins og áður sagði á milli jóla og nýárs, vinsamlegast látið vita um þær ekki seinna en 29.desember, ítrekum það sem sagt er hér ofar að það þurfa að líða a.m.k. 2 dagar á milli þess sem „heimsóknarteymin“ koma.
Vinsamlegast farið í gegnum þessa gátt og biðjið starfsfólk sem er á vakt hverju sinni ekki um nein frávik frá gildindi reglum eða breytingu frá skráðum heimsóknargestum.
Við sendum ykkur öllum okkar bestu óskir um gleðilega jólahátíð og horfum með bjartsýni til nýs árs með von um fleiri samverustundir á nýju ári um leið og við þökkum einstaklega góð samskipti og dýrmætan skilning á flóknum aðstæðum á yfirstand ári.
Með kærri kveðju,
f.h. Brákarhlíðar,
Bjarki, Halla og Jórunn