Faglegt starf í Brákarhlíð hefur eflst á undanförnum árum, en hjá okkur starfa hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, félagsliðar, iðjuþjálfi og sjúkraþjálfari.
Forstöðumaður hjúkrunarsviðs ber faglega ábyrgð á starfi Brákarhlíðar og er öðrum starfsmönnum til ráðgjafar.
Við á Brákarhlíð erum með okkar lækni sem starfar sem verktaki. Hann er hjá okkur einn dag í viku, en læknar HVE í Borgarnesi sinna bráðatilvikum.
Hjá okkur starfar sjúkraþjálfari sem er þrjá daga í viku.
Eins er forstöðumaður þjónustusviðs með leikfimi fyrir heimilisfólk, bæði í hóptímum fjóra morgna í viku sem og í einkatímum og einnig er boðið upp á jóga á vissum tímum.Handavinnustofa/iðjustofa er á jarðhæð og er hún opin alla virka daga milli kl. 9:30 – 15:45, þar er margskonar iðja stunduð undir handleiðslu iðjuþjálfa og annarra starfsmanna. Sláturnælur eru framleiddar og eru þær í sölu í ýmsum stórmörkuðum.
Hægt er að panta hárgreiðslu og klippingu hjá hárgreiðslukonu á jarðhæð heimilisins. Sú þjónusta er gegn gjaldi. Fótaaðgerðarfræðingur er einnig með aðstöðu á jarðhæð og hægt er að panta þjónustu hjá henni sömuleiðis, þessi þjónusta er einnig gegn gjaldi.
Brákarhlíð er reyklaus vinnustaður og reykingar heimilismanna eru með öllu óheimilar inn á herbergjum og á öðrum stöðum en þeim sem boðið er upp á ef heimilismaður reykir.
Ýmsar upplýsingar.
Aðstandendum er velkomið að koma í heimsókn á heimilið og er heimsóknartími frjáls nema þegar um er að ræða sérstakar aðstæður, samanber Covid-19 og heimsóknarreglur og aðrar umgengnisreglur vegna þess. Besti tíminn til heimsókna er allajafna á milli kl. 11:00 til kl. 21:00. Við viljum hvetja gesti til að fá sér kaffi og með því með heimilisfólki ef gesti ber að garði á kaffitíma, einnig viljum við benda á opnar setustofur á heimilinu þar sem notalegt er að setjast niður. Einnig er öll tilbreyting sem aðstandendur geta boðið heimilisfólki upp á af hinu góða, t.d. gönguferðir, bílferðir eða heimsóknir til vina og ættingja. Helgar og bæjarleyfi eru mikilvægur þáttur í bættum lífsgæðum hins aldraðra. Heimilisfólk í Brákarhlíð getur að sjálfsögðu brugðið sér í slík leyfi treysti þeir sér til þess.
Matmálstímar:
Morgunverður: kl. 8:30
Hádegisverður: kl. 12:00
Síðdegiskaffi: kl. 15:30
Kvöldverður: kl. 18:30
Heimilisfólk sér sjálft um persónulegar snyrtivörur eins og tannbursta, tannkrem, ilmvötn, krem, rakáhöld, hárvörur og aðrar snyrtivörur.
Fatnaður
Heimilið sér um að allur almennur fatnaður heimilismanna sé þveginn, ef um sparifatnað og slíkt er að ræða þá er það á ábyrgð heimilismanna og ættingja þeirra. Kaup og eftirlit með fatnaði er í höndum aðstandenda og mikilvægt er að ný föt séu örugglega merkt áður en þau eru notuð svo að þau týnist ekki eftir fyrsta þvott. Áhersla er lögð á að heimilisfólk geti verið snyrtilegt til fara.
Markmið Brákarhlíðar
Markmið starfsmanna er að heimilisfólki í Brákarhlíð líði sem best á heimilinu, við gerum okkur grein fyrir því að við störfum inn á heimili fólksins, það dvelur ekki á vinnustaðnum okkar. Við leggjum áherslu á að bera virðingu fyrir einstaklingnum, fyrri venjum hans og siðum. Einnig að hann og fjölskylda hans njóti trúnaðar og umhyggju í samskiptum. Við leggjum áherslu á að styðja við bak einstaklingsins svo hann megi halda sjálfstæði, virkni, lífsgleði og reisn til æviloka. Við viljum veita góða andlega, líkamlega og félagslega þjónustu og styðjast við viðurkennd viðmið.