Sagan

Upphafið að stofnun Dvalarheimilis aldraðra í Borgarnesi, sem nú heitir Brákarhlíð, var að Samband borgfirskra kvenna hóf fjársöfnun í kringum 1960 og stofnaði síðan sérstaka nefnd til að hefja undirbúning að byggingu dvalarheimilis aldraða í héraðinu.  Síðar komu inn í verkefnið hrepparnir í Mýrasýslu og Borgarfjarðarsýslu innan Skarðsheiðar og seinna hrepparnir úr Hnappadalssýslu.

Fjáröflunarnefnd S.B.K. starfaði allt til ársins 1980 og var þar unnið mikið og óeigingjarnt starf og safnað fjármunum sem komu sér vel þegar til framkvæmda kom.
DAB er sjálfseignarstofnun og stofnaðilar er áðurnefndir, í dag eru bakhjarlar heimilisins sveitarfélögin Borgarbyggð, Eyja- og Miklaholtshreppur og Skorradalur auk þess sem Samband borgfirskra kvenna er sem fyrr bakhjarl heimilisins og á einn fulltrúa í stjórn.

Fyrsti áfangi heimilisins var byggður á árunum 1968 – 1970 og var sá hluti tekinn í notkun 31. janúar 1971 með rými fyrir 29 heimilismenn og var það strax fullskipað.  Síðar var hafist handa við byggingu annars áfanga og var hann tekinn í notkun árið 1975 og svo þriðji og síðasti áfangi í byrjun árs 1983.  Í júlí árið 2012 var langþráðum áfanga náð þegar ný hjúkrunarálma var vígð, eru þar einstaklingsherbergi fyrir 35 heimilismenn.  Þá þegar var hafist handa við að endurbæta eldri hluta hússins og eru þar 19 rými fyrir heimilismenn auk allrar stoðstarfssemi, þ.e. vinnustofa, eldhús, samkomusalur, skrifstofur og fl.  Á sama degi og nýja hjúkrunarálman var vígð var tilkynnt um nýtt nafn á heimilið, varð nafnið Brákarhlíð hlutskarpast í skoðanakönnun sem heimilisfólk og starfsmenn tóku þátt í.

Í fyrstu var heimilið rekið eingöngu sem dvalarheimili en frá 1. janúar 1989 voru 12 plássum breytt í hjúkrunarrými og hjúkrunarrýmin urðu síðan 20 frá 1. janúar 1996.  Í dag eru hjúkrunarrýmin 35, þar af tvö hvíldarinnlagnarrýma, dvalarrýmin eru 17, að auki er Brákarhlíð með heimild fyrir 4 dagdvalarrýmum.

Núverandi húsnæði er ríflega 5000 fm. á þremur hæðum.  Heimilsmenn búa í rúmgóðum herbergjum sem öll eru með snyrtiaðstöðu.  Vistarverur til sameiginlegra nota eru margar, t.d. góður samkomusalur, iðjustofa/handavinnustofa sem opin er alla virka daga milli kl. 9:30 – 15:45, setustofur með sjónvarpi, bókasafn er á staðnum, hárgreiðslustofa og fótsnyrting eru á jarðhæðinni.  Fullkomið eldhús er á heimilinu þar sem eldað er fyrir heimilisfólk og starfsfólk, auk þess sem eldaður er matur sem sendur er til eldri borgara í Borgarnesi í hádeginu alla daga.  Starfsfólk í Brákarhlíð er alla jafna um 80 í rúmlega 50 stöðugildum.